Umhirða blóma

Afskorin blóm

Hitastig

Hitastig umhverfisins er sá þáttur sem hefur mest áhrif á gæði blóma eftir skurð. Þegar þú heldur af stað heimleiðis úr blómabúðinni skaltu byrja á því að passa að sólin nái ekki að skýna beint á blómin og passaðu líka miðstöðina í bílnum þessi atriði hafa mikil áhrif á endingu blómana. Hærri hiti leiðir til hraðari þroskunar og visnunar. Lægri hiti hægir á öndun og notkun sykra og öðrum forða plöntunnar. Við lægra hitastig minnkar einnig ethylene-framleiðsla blómanna og viðkvæmni þeirra fyrir ethylene í umhverfinu minnkar. Lægri hiti dregur einnig úr vatnstapi og vexti örvera.  Blóm eru með misjafnan kjörgeymsluhita hverrar tegundar. Almennt ætti að geyma blóm úr tempraða beltinu við hitastig sem er rétt ofan við frostmark plöntuvefjarins en blóm upprunnin úr hitabeltinu eru oft viðkvæm fyrir lágum hita og ætti því að geyma við 8 – 15°C. Þau geta mislitast og skemmst eða þá að knúpparnir opnast ekki eftir að blómin hafa verið tekin úr kæli.

Skurður

Nauðsynlegt er að skáskera alla stilka blómanna með beittum hníf (ekki klippa, það lokar æðum leggjanna) gott getur verið að stytta vöndinn þannig að hann passi betur í vasann en í flestum tilvikum er betra að klippa ekki á græna bandið sem sett er á í blómabúðinni.

Vatnið

Vatnið okkar hér á íslandi er sennilega það tærasta sem finnst í heiminum en það er einmitt ástæðan fyrir því að það er svona örveruríkt en þær fara ekki vel með afskorin blóm því þurfum við að passa að blómavasinn sé ávalt hreinn en það er ekki nóg að þvo hann eingöngu heldur er líka nauðsynlegt að setja klórblandað (ca. 1 tappa af 5% klór) vatn í vasan og lofa því að vera í ca. 1 klukkustund. Örverur eru fljótar að drepa blómin og geta stytt líftíma blómanna verulega. Gott ráð er að setja 2 til 3 dropa af 5% klór í vatnið sem blómin fara í en þá ná örverurnar síður tökum á blómunum. Passið að eingöngu blómastilkarnir séu í vatninu og fjarlægið öll laufblöð sem fyrirséð er að lendi í vatninu. Það dregur úr hættu að vatnið fúlni. Notið blómanæringuna sem oftast fylgir með blómakaupunum.  Pakkinn dugar í lítra af vatni. Best er að leysa næringuna upp í könnu og geyma það sem eftir verður þegar búið er að fylla vasann hæfilega. Þessu vatni er svo bætt á síðar eftir þörfum. Almenna reglan er að hafa stofuhita á vatninu. Ef blómanæring er ekki notuð þarf að skipta um vatn daglega.

Nánari upplýsingar um meðhöndlun afskorinna blóma eru veittar í síma 462-4800 eða 462-2900 eða á netfangið blomak@blomak.is